Ólympíumeistarinn Sammy Wanjiru frá Kenía sigraði í dag í Lundúnamaraþoninu eftir að hafa staðið af sér æsilegan endasprett Tsegaye Kebede frá Eþíópíu.
Wanjiru setti mótsmet með því að hlaupa vegalengdina á tveimur klukkustundum, fimm mínútum og tíu sekúndum og bætti þar með met landa síns Martin Lel um fimm sekúndur sem sett var í fyrra.
Wanjiru varð í fyrrasumar fyrsti Keníamaðurinn til að vinna Ólympíugull í maraþonhlaupi en hann setti heimsmet í dag þegar hann hljóp hálfa vegalengdina á 61 mínútu og 35 sekúndum.
Í kvennaflokki sigraði Irina Mikitenko annað árið í röð þegar hún hljóp á tveimur klukkustundum, 22 mínútum og 11 sekúndum. Mitenko er 36 ára gömul og kemur upphaflega frá Kazakstan.
Þess má til gamans geta að knattspyrnustjórinn Tony Pulis hjá Stoke City í ensku úrvalsdeildinni tók líka þátt í maraþoninu í dag, en hann gerði það til að safna peningum fyrir barnaspítala. Sagt er að hann hafi safnað tæpum tveimur milljónum króna með hlaupinu.