Handbolti

Alexander á förum frá Flensburg

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Alexander spilar ekki mikið lengur með Flensburg.
Alexander spilar ekki mikið lengur með Flensburg.

Alexander Petersson staðfesti við Vísi í kvöld að hann væri á förum frá þýska úrvalsdeildarfélaginu Flensburg. Hann mun í seinasta lagi yfirgefa liðið næsta sumar og jafnvel eins snemma og eftir EM.

„Ég er alls ekki nógu ánægður í Flensburg. Ég er orðinn varamaður en það er hlutverk sem ég þekki ekki og kann ekki vel við. Ég mun ekki framlengja við liðið og þeir sleppa mér því kannski í janúar," sagði Alexander en samningur hans við liðið rennur út næsta sumar.

Per Carlén, þjálfari Flensburg, hefur spilað nær eingöngu á syni sínum, Oscar, í vetur og á meðan er Alexander í frystikistunni.

„Oscar er alveg góður leikmaður en hann fær alltaf að spila í 60 mínútur og ræður sjálfur hvenær hann fer af velli," sagði Alexander ósáttur.

„Per hrósar mér alltaf á æfingum en þegar kemur að leikjum þá fær sonurinn bara að spila. Þetta er leiðinlegt."

Alexander hefur þegar heyrt í nokkrum félögum en þau eru öll í neðri hluta þýsku úrvalsdeildarinnar. Það hugnast Alexander ekki og hann ætlar að nýta EM í janúar til þess að minna á sig. Í kjölfarið vonast hann til þess að komast að hjá sterku liði.

Þrátt fyrir leiðindin í Flensburg segir Alexander gott að komast til Íslands.

„Það er mjög gott að koma heim til Íslands og komast í rólegar æfingar hjá Gumma, í tvo tíma tvisvar á dag," sagði Alexander og glotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×