Rafael Nadal mun í dag taka endanlega ákvörðun um hvort hann muni verja meistaratign sína á Wimbledon-mótinu í tennis sem hefst á mánudaginn.
Nadal hefur mátt glíma við hnémeiðsli undanfarna mánuði en hefur reynt af fremsta megni að gera sig kláran fyrir Wimbledon-mótið, það stærsta í tennisheiminum hvert ár.
Hann lék æfingaleik við Lleyton Hewitt í Lundúnum í gær en tapaði, 6-4 og 6-3. Hann sagði leikinn hafa verið mikla prófraun fyrir sig en hann ætlaði að bíða með að ákveða sig þar til eftir annan æfingaleik í dag.
Hann mætir Stanislas Wawrinka frá Sviss í dag. Fjölmiðlum í Englandi þykir þó afar ólíklegt að Nadal muni taka þátt í Wimbledon-mótinu.