Sport

ÍR sigraði á Meistaramótinu (myndir)

ÍR varð í dag Íslandsmeistari félagsliða í frjálsum íþróttum á meistaramótinu sem lauk í Laugardalshöll í dag. ÍR háði harða baráttu við FH sem varð í öðru sæti.

Kristinn Torfason í FH, sem bætti í gær 30 ára met Friðriks Þórs Óskarssonar í þrístökki, sigraði í langstökki í dag þegar hann stökk 7 metra og 20 sentimetra í sjöttu umferð.

Bjarni Malmquist Fjölni varð annar, stökk 6,95 metra. Kristinn háði harða baráttu við félaga sinn í FH,Trausta Stefánsson í úrslitum í 200 metra hlaupi, Trausti sigraði á 22,07 sekúndum en Kristinn hljóp á 22,14 sekúndum.

Örn Davíðsson FH sigraði í hástökki, stökk 1,91 metra sömu hæð og Aron Kárason HSK en í færri tilraunum.

Jóhanna Ingadóttir ÍR sigraði í þrístökki, stökk 12,55 metra en hún sigraði einnig í langstökkinu í gær.

Þórey Edda Elísdóttir FH varð öruggur sigurvegari í stangarstökki, fór yfir 4 metra en Hulda Þorsteinsdóttir ÍR varð önnur, stökk yfir 3 metra og 40 sentimetra

Ólafur Guðmundsson HSK sigraði í 60 metra grindahlaupi, hljóp á 8,59 sekúndum. Bjarni Malmquist í Fjölni varð annar á 8,71 sekúndu.

Hafdís Sigurðardóttir HSÞ sigraði í 200 metra hlaupi, Björn Margeirsson FH og Arndís Ýr Hafþórsdóttir Fjölni sigruðu í 800 metra hlaupi en Arndís varð einnig hlutskörpust í 3000 metra hlaupi. Stefán Guðmundsson Breiðabliki sigraði í 3000 metra hlaupi karla.

Í 60 metra grindahlaupi kvenna sigraði Linda Björk Lárusdóttir í Breiðabliki á 8,87 sekúndum en Ágústa Tryggvadóttir Selfossi varð önnur á 9,22 sekúndum. Linda Björk sigraði einnig í 60 metra hlaupinu í gær. Loks sigraði Fjölnir í 4x400 metra boðhlaupi kvenna og FH í sömu vegalengd í karlaflokki.

Verðlaun fyrir besta árangur karla og kvenna á mótinu fengu þau Jóhanna Ingadóttir ÍR fyrir 6,10 metra í langstökki (1009 stig) og Óðinn Björn Þorsteinsson FH fyrir 17,75 metra í kúluvarp (985 stig).

Í tenglinum hér fyrir neðan má sjá myndir sem Anton Brink tók á mótinu

Mynd/Anton Brink



Fleiri fréttir

Sjá meira


×