Körfubolti

Lífið heldur áfram án Helenu

Kristrún Sigurjónsdóttir með verðlaunagripinn í dag
Kristrún Sigurjónsdóttir með verðlaunagripinn í dag Mynd/Stefán
"Þetta er að sjálfssögðu bara liðinu að þakka. Við erum með frábært lið og það hjálpar mér að spila vel," sagði Kristrún Sigurjónsdóttir, besti leikmaður fyrstu 11 umferða Iceland Express deildar kvenna í körfubolta.

Kristrún hefur átt frábært tímabil með toppliði Hauka það sem af er. Hún skorar að meðaltali 21,5 stig, hirðir 5,5 fráköst, gefur tæpar 4 stoðsendingar og stelur 3,1 bolta í leik.

"Við erum á toppnum sem stendur en erum ekki búnar að vinna neitt þó við séum á toppnum. Stefnan hjá okkur er bara að halda þessu góða gengi áfram," sagði þessi hógværi leikmaður í samtali við Vísi í dag.

Margir reiknuðu með því að brotthvarf Helenu Sverrisdóttur yrði Haukaliðinu gríðarleg blóðtaka, en það er engu að síður á toppnum þrátt fyrir að missa bestu körfuknattleikskonu landsins til Bandaríkjanna.

"Við tókum smá dýfu eftir að Helena fór en nú erum við búnar að byggja upp gott lið án hennar og ég vona að við höldum því áfram. Það er fullt af efnilegum stelpum hjá okkur, ekki síst stóru stelpurnar sem eru að spila inni í teig eins og Ragna Margrét (Brynjarsdóttir) og Telma (Fjalarsdóttir). Ég er virkilega ánægð með þær. Þær sjá um að hirða fráköstin og hjálpa mér að skora," sagði Kristrún og vísaði óspart í félaga sína í Haukaliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×