Deportivo getur ekki fengið Giovanni dos Santos, leikmann Tottenham, að láni fyrr en að félagaskiptaglugginn opnar um næstu mánaðamót.
Forráðamenn Deportivo hafa mikinn áhuga á að fá dos Santos í sínar raðir og sjálfur hefur leikmaðurinn áhuga á að finna sér nýtt félag þar sem hann á meiri möguleika á því að fá að spila reglulega.
Dos Santos var reyndar í byrjunarliði Tottenham gegn Preston í ensku deildabikarkeppninni í vikunni en var tekinn snemma af velli vegna meiðsla.
En samkvæmt reglum spænska knattspyrnusambandsins er félögum þar í landi ekki heimilt að fá lánsmenn frá öðrum löndum nema þegar félagaskiptaglugginn er opinn. Hann opnar ekki á ný fyrr en um áramótin.