Körfubolti

Síðasta tækifærið fyrir sigur í Síkinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Friðriksson, þjálfari Tindastóls fær sína gömlu félaga í heimsókn í kvöld.
Kristinn Friðriksson, þjálfari Tindastóls fær sína gömlu félaga í heimsókn í kvöld. Mynd/Vilhelm

Tindastólsmenn eiga enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina þrátt fyrir að liðið sé búið að tapa sjö deildarleikjum í röð og ekki búið að vinna á heimavelli síðan í nóvember. Tindastóll fær Íslandsmeistara Keflavíkur í heimsókn í Síkið í kvöld.

Tindastóll hefur tapað 11 af síðustu 12 leikjum sínum í Iceland Express deild karla og á þeim tíma farið úr 3. sæti deildarinnar niður í 9. sætið þar sem liðið er nú. Eftir að liðið vann 6 af fyrstu 8 leikjum sínum bjuggust flestir að Stólarnir yrðu með heimavallarrétt í úrslitakeppninni en meiðsli og útlendingavandræði hafa komið mikið niður á liðinu.

Tindastóll vann þrjá fyrstu heimaleiki vetrarins og var tíu stigum yfir í hálfleik, 40-30, í fjórða heimaleiknum sem var á móti ósigruðu liði KR. KR-ingar unnu hinsvegar síðari hálfleikinn 66-30 og síðan þá hefur Tindastóll ekki unnið heimaleik í Iceland Express deildinni.

Síðan að Tindastóll tapaði fyrir KR (-26) hafa Breiðablik (-4), Snæfell (-7), Grindavík (-26), ÍR (-1), Njarðvík (-11) og Þór Akureyri (-3) farið burtu frá Króknum með bæði stigin. Eins og sjá má á þessu hafa flestir þessara heimaleikja tapast naumlega.

Tindastóll hefur aldrei tapað svo mörgum heimaleikjum í röð í úrvalsdeild en gamla metið voru fimm tapleikir í röð tímabilið 1996-97. Tindastóll tapaði þá fimm fyrstu heimaleikjum tímabilsins.

Keflavík hefur haft gott tak á Tindastól undanfarin ár því Tindastóll hefur ekki unnið Keflavíkurliðin í úrvalsdeildinni síðan 15. febrúar 2004. Frá þeim tíma hefur Keflavík unnið sjö innbyrðisleiki liðanna í röð í deildinni.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×