Fyrsta leik kvöldsins í úrslitakeppni NBA er þegar lokið. LA Lakers vann auðveldan sigur á Utah Jazz á heimavelli 113-100 þar sem þrír leikmenn Lakers skoruðu yfir 20 stig.
Lið Lakers hafði fádæma yfirburði í Vesturdeildinni í vetur og leikurinn í kvöld var í takt við það. Kobe Bryant byrjaði rólega en skoraði 24 stig fyrir Lakers, Trevor Ariza setti persónulegt met með 21 stigi og Pau Gasol skoraði 20 stig.
Lakers-liðið náði fljótlega 20 stiga forystu í leiknum og þó gestirnir hafi náð að minnka muninn niður fyrir tíu stig í tvígang, var sigur heimamanna aldrei í hættu.
Það boðar ekki gott fyrir mótherja Lakers og Phil Jackson þjálfara að lenda undir 1-0 í einvígi í úrslitakeppni. Jackson hefur unnið allar 18 seríurnar þar sem hann hefur komist yfir 1-0 sem þjálfari Lakers - og allar 42 seríurnar sem hann hefur tekið þátt í sem þjálfari hjá Chicago og Los Angeles.
Carlos Boozer var atkvæðamestur hjá Utah með 27 stig og 9 fráköst og Deron Williams skoraði 16 stig og setti persónulegt met með 17 stoðsendingum.
Utah saknaði mikið miðherjans Mehmet Okur sem gat ekki tekið þátt í leiknum vegna meiðsla á læri. Utah hefur tapað síðustu 10 leikjum sínum í Staples Center í deild og úrslitakeppni.
Kobe Bryant hefur nú skorað 3710 stig fyrir Lakers í úrslitakeppni á ferlinum og fór upp fyrir Magic Johnson í þriðja sæti yfir stigahæstu leikmenn Lakers í úrslitakeppni.
Jerry West skoraði á sínum tíma 4457 stig og Kareem Abdul-Jabbar skoraði 4070 stig í úrslitakeppni fyrir Lakers. Bryant er nú níundi á lista stigahæstu leikmanna í úrslitakeppni í sögu NBA.