Körfubolti

Benedikt: Enn nóg eftir af tímabilinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR. Mynd/Vilhelm

Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, fór varlega í yfirlýsingarnar eftir að hans lið vann sinn tíunda sigur í röð í Iceland Express-deild kvenna.

KR vann öruggan sigur á sterku liði Grindavíkur, 81-56, en fyrir leikinn voru Grindvíkingar búnir að vinna fjóra leiki í röð. En þeir virtust lítið eiga í KR-inga.

„Fyrst og fremst fannst mér við byrja gríðarlega vel og við náðum góðum tökum á leiknum mjög snemma," sagði Benedikt. „Svo meiddist Hildur [Sigurðardóttir] í baki og spilaði því lítið sem ekkert. Fyrir voru tveir leikstjórnendur meiddir og var ég því eiginlega ekki með neina leikstjórnendur í leiknum í kvöld."

Þar að auki eru fjórir leikmenn KR meiddir, þeirra á meðal Bandaríkjamaðurinn Jenny Pfeiffer-Finora.

„Það eru ekki mörg lið sem mega við því að missa svo marga leikmenn. Ég var mjög ánægður með hversu sannfærandi sigur okkar var."

KR er með fjögurra stiga forystu á næsta lið í deildinni en Benedikt segir ekkert farinn að hugsa um neina titla enn.

„Maður er búinn að sjá svo margt í gegnum tíðina. Allir héldu í fyrra að karlalið KR myndi rúlla deildinni upp en þá kom einn Nick Bradford til Grindavíkur og breytti öllu," sagði Benedikt en hann var þjálfari karlaliðs KR í fyrra.

„Það er heil eilífð þar til tímabilið klárast og maður veit ekkert hvað getur gerst í vetur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×