Körfubolti

Sigrún búin að spila fjóra oddaleiki á 3 árum og vinna þá alla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigrún Ámundadóttir, leikmaður KR.
Sigrún Ámundadóttir, leikmaður KR. Mynd/Vilhelm

Sigrún Ámundadóttir, leikmaður KR, ætti að vera farin að þekkja þá stöðu vel að vera að fara spila oddaleik. Sigrún hefur leikið fjóra oddaleiki með Haukum og KR frá árinu 2006 og hefur verið í sigurliði í þeim öllum.

Sigrún hefur spilað 26,5 mínútur að meðaltali í þessum fjórum leikjum og í þeim hefur hún skorað 11,3 stig, tekið 7,3 fráköst og gefið 2,5 stoðsendingar meðaltali.

Sigrún hefur líka sett niður 8 þriggja stiga skot úr 19 tilraunum í þessum úrslitaleikjum sem gerir 42,1 prósent þriggja stiga skotnýtingu. Framlag Sigrúnar í þessum fjórum oddaleikjum er upp á 12,8 framlagsstig í leik.

Þetta er aftur á móti í fyrsta sinn sem Sigrún spilar oddaleik um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn því Haukaliðið þurfti ekki oddaleik í lokaúrslitum í hvorugt skiptið sem Sigrún varð Íslandsmeistari með því.

Guðrún Ósk Ámundadóttir, systir Sigrúnar, hefur verið í hóp í öllum þessum leikjum en aðeins spilað í þremur síðustu. Í þeim hefur hún skorað 4,7 stig að meðtali á 19,0 mínútum.



Oddaleikir Sigrúnar síðustu ár:

29. mars 2006 - Undanúrslit

Sigrún kom inn af bekknum og var með 3 stig, 1 fráköst og 1 varið skot á 18 mínútum í 91-77 sigri Hauka á ÍS.

31. mars 2007 - Undanúrslit

Sigrún var í byrjunarliðinu og var með 7 stig, 4 fráköst, 3 stoðsendingar og 2 stolna bolta á 23 mínútum í 81-59 sigri Hauka á ÍS.

25. mars 2008 - Undanúrslit

Sigrún var í byrjunarliðinu og var með 23 stig, 14 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 þrista á 36 mínútum í 83-69 sigri KR á Grindavík.

8. mars 2009 - Sex liða úrslit

Sigrún var í byrjunarliðinu og var með 12 stig, 10 fráköst, 3 stoðsendingar og 2 þrista á 29 mínútum í 77-57 sigri KR á Grindavík.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×