Leikur meistara Pittsburgh Steelers í NFL-deildinni hefur algjörlega hrunið á síðustu vikum og liðið tapaði í gær sínum fimmta leik í röð.
Liðið þarf nú að vinna þá leiki sem það á eftir og treysta á hagstæð úrslit úr öðrum leikjum til þess að komast í úrslitakeppnina.
Steelers tapaði í gær fyrir Cleveland Browns, 13-6, þar sem leikstjórnanda Steelers, Ben Roethlisberger, var skellt átta sinnum í grasið.
„Að tapa fimm leikjum í röð eftir meistaratímabil er neyðarlegt," sagði Hines Ward, útherji Steelers.
„Það er ekkert skemmtilegt að tapa leikjum og ég tala nú ekki um fimm leikjum í röð. Við erum betri en þetta. Það eru þrír leikir eftir og nú kemur í ljós hverjir vilja virkilega spila fyrir þetta félag."