NBA-deildin hefur enn eina ferðina sektað hinn litríka eiganda Dallas Mavericks, Mark Cuban. Að þessu sinni fékk hann 25 þúsund dollara sekt fyrir að kvarta yfir dómgæslu á samskiptasíðunni Twitter sem virðist vera að tröllríða öllu í Bandaríkjunum þessa dagana.
Cuban skrifaði á Twitter-síðuna sína að það hefði verið glórulaust að J.R. Smith hjá Denver hefði komist upp með að hlaupa af bekknum til þess að ögra einum leikmanni Dallas eftir að hann hafði klúðrað skoti.
Hinn hressi Cuban tók sektinni vel og skrifaði á Twitter-síðuna.
„Það er ekki lengur hægt að segja að enginn sé að græða á Twitter. NBA er nefnilega að gera það."