Körfubolti

Margrét Kara sýndi fjölhæfni sína í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Kara er KR-liðinu mikill fengur
Margrét Kara er KR-liðinu mikill fengur
Margrét Kara Sturludóttir sýndi fjölhæfni sína í fyrsta leik sínum í KR-búningnum í Iceland Express deild kvenna í gær.

Margrét Kara varð þá fyrsti íslenski leikmaðurinn í sögu KR í efstu deild kvenna til að ná yfir fjóra í fimm tölfræðiþáttum. Kara var með 17 stig, 11 fráköst, 6 stoðsendingar, 6 varin skot og 4 stolna bolta í 69-54 sigri á Snæfelli.

Margrét Kara fékk framlagseinkunn upp á 33 í leiknum sem er hæsta framlag sem leikmaður kvennaliðs KR hefur verið með í einum leik í Iceland Express deildinni í vetur en Sigrún Ámundadóttir skilaði 31 framlagsstigi í sigri á Val 12. nóvember síðastliðinn.

Margrét Kara átti meðal annars þátt í öllum sjö stigum KR-liðsins þegar leiðir skildu í fjórða leikhlutanum og KR breytti stöðunni úr 45-41 í 52-43. Kara skoraði 5 stiganna sjálf en átti einnig eina stoðsendingu. Kara var alls með 7 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar í fjórða leikhlutanum sem KR-liðið vann 26-15.

Margrét Kara var ein af fjórum KR-ingum sem tóku 10 fráköst eða fleiri í leiknum en KR-liðið vann frákastabaráttuna með 31 frákasti og tók 65 prósent frákasta í boði í leiknum. KR tók meðal annars 34 af 60 fráköstum undir körfu Snæfellsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×