Körfubolti

Leikmenn Houston komnir með nóg af meiðslasögu McGrady

Meiðslakálfarnir Tracy McGrady og Yao Ming
Meiðslakálfarnir Tracy McGrady og Yao Ming NordicPhotos/GettyImages

Þær fréttir berast nú úr herbúðum Houston Rockets í NBA deildinni að Yao Ming og aðrir leikmenn í liðinu séu búnir að fá nóg af óslitinni meiðslasögu Tracy McGrady og vilji hann jafnvel burt frá félaginu.

Fréttamaðurinn David Aldridge hjá TNT sjónvarpsstöðinni hefur þannig eftir heimildamanni sínum að þeir Yao Ming og Tracy McGrady, aðalstjörnur liðsins, tali ekki saman þessa dagana - og að Ming sé búinn að fá nóg af sjúkrahúsvist félaga síns.

Ef þessar fréttir reynast réttar, kemur gagnrýni Yao Ming reyndar úr hörðustu átt, því kínverski risinn hefur verið litlu skárri sjálfur þegar kemur að þrálátum meiðslum.

Tracy McGrady er aðeins 29 ára gamall, en hefur verið lengi í deildinni og er það farið að hafa áhrif á skrokkinn á honum.

"Guð minn góður, hann er orðinn gamall," sagði ónefndur njósnari í samtali við David Aldridge og vísaði þar í stirðbusalegan leik McGrady, sem á árum áður var einn mesti íþróttamaður NBA deildarinnar.

McGrady hefur aðeins einu sinni spilað yfir 70 af 82 leikjum Houston frá árinu 2005 og hefur spilað aðeins 28 af 40 leikjum Houston til þessa í vetur.

Yao Ming er litlu skárri og hefur hann ekki spilað meira en 57 leiki á tímabili síðan árið 2005.

Það er ekki síst vegna vanheilsu þeirra félaga sem Houston hefur aldrei náð að standa undir væntingum í NBA deildinni þegar kemur fram á vorið, en þeir félagar hafa aldrei komist upp úr fyrstu umferðinni.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×