Körfubolti

Ezell til Hauka: Þarf örugglega ekki að læra 200 kerfi eins og hjá Iowa State

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heather Ezell er vön því að vera í viðtölum.
Heather Ezell er vön því að vera í viðtölum. Mynd/www.cyclones.com

Íslandsmeistarar Hauka í Iceland Express deild kvenna eru búnir að ráða til sín erlendan leikmann fyrir komandi tímabil en það er Heather Ezell 22 ára og 175 sm bakvörður úr Iowa State háskólanum.

Heather Ezell er mikil skytta en engin hefur skorað fleiri þriggja stiga körfur en hún í sögu Iowa State skólans. Ezell er auk þess í 10. sæti yfir flest stig og í 3. sæti í stolnum boltum í sögu skólans.

Heather Ezell var með 11,7 stig, 3,5 stoðsendingar og 3,3 fráköst að meðaltali á sínu síðasta skólaári í vetur en hún nýtti 88 af 249 þriggja stiga skotum sínum (35,3 prósent) og 82 af 104 vítum sínum (80,4 prósent).

Ezell kemur til Íslands 14. september næstkomandi en hún tjáir sig um förina til Íslands á heimasíðu Iowa State háskólans. Hún býst ekki við að þurfa að læra 200 leikkerfi eins og hjá Iowa State.

„Ég er vön því að læra kerfi á stuttum tíma og það breytist vonandi ekkert á Íslandi. Ég er viss um að ég þarf ekki að læra 200 kerfi eins og hjá Iowa State en það verður talsvert öðruvísi að spila í öðru landi," sagði Ezell sem mætir í góðu formi til Íslands eftir að hafa æft mikið sjálf.

Ezell er ánægð með góðan samning og segist hafa hafnað öðru tilboði frá íslensku liði sem var ekki eins gott. „Ég er spennt fyrir því að fá tækifæri til að spila í öðru landi og fá að kynnast nýjum siðum," segir Ezell sem viðurkennir þó að hún sé smá stressuð fyrir þessu öllu saman.

Það er hægt að sjá viðtalið við Heather Ezell hér.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×