Michael Beasley, leikmaður Miami Heat, heldur áfram að vekja athygli utan vallar. Ekki er langt síðan að hann hvarf og fannst ekki í marga daga. Síðar kom í ljós að hann hafði tékkað sig inn á meðferðarstofnun.
Nú hafa verið birtar myndir af honum á netinu þar sem hann er í bátsferð. Liggur Beasley sofandi á bátnum á myndunum og eru bjórflöskur allt í kringum hann á einni myndinni.
Myndin var tekin í ferð á vegum Miami Heat. Beasley afneitar því með öllu að hann hafi fengið sér í glas í ferðinni. Hann segist vera hættur að drekka.
Skipstjóri bátsins hefur gefið frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir Beasley ekki hafa smakkað dropa um borð í bátnum.
Forráðamenn Heat hafa einnig gefið það út að Beasley hafi ekki brotið neitt af sér.