Skoðun

Opið bréf til Jóns Bjarnasonar

Snærós Sindradóttir skrifar
Stefna Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum er skýr. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er stefnan líka alveg á hreinu. Fara á leið fyrningar. Ég vil keyra á fyrningu kvótans og grasrót VG vill keyra á fyrningu kvótans. Fyrningarleiðin er langbesti kosturinn í stöðunni. Hún mun taka nokkurn tíma og verður án efa sársaukafull. En þannig er oft um erfiðar göngur – þær taka á. Það þýðir þess vegna ekki að hika – tíminn er naumur.

Framsal kvótans var leyft árið sem ég fæddist. Á þeim átján árum sem liðin eru hefur þetta úldna kerfi gert svo mikinn skaða að mjög erfitt mun reynast að vinda ofan af því. Ef tuttugu ára áætlun fyrningarinnar á að standa óbreytt verður að hamra á henni núna. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig ástandið verður þegar óréttlætið hefur ríkt í 40 ár.

Það er ástæða fyrir því að svokallaðir kvótakóngar bera það nafn. Þeir eru ríkir og valdamiklir en umfram allt frekir. Þeir eiga sín hagsmunasamtök sem um árabil hafa komið í veg fyrir nauðsynlegar breytingar á kerfinu. Þeir ala á óttanum og nota fjölmiðla og málpípur sínar á þingi og í sveitarstjórnum til að hamra á boðskapnum.

Elsku Jón, ekki hlusta á þeirra kvart, kvein og kjökur. Það eru þessir menn og vinir þeirra sem innleiddu kerfið og hafa rænt þessum auðlindum almennings. Það er þeim að kenna að byggð í landinu hefur riðlast. Þeir dæla peningum úr greininni í óskyldar greinar. Fjármálahrunið má rekja til yfirveðsetningar fisksins í sjónum og spákaupmennsku þessara manna og annarra í framhaldinu. Þess vegna hrópar fólk eftir patentlausnunum.

Þú veist hver þróunin hefur verið á Vestfjörðum. Þú veist hvað gerðist á Austfjörðum þar sem stóriðja átti að leysa bágt atvinnuástandið og fólksflóttann. Þetta var skyndilausn sem gerir sama gagn og súkkulaðistykki við hungri. Gott í stuttan tíma en síðan verður maður aftur svangur. Það er hins vegar ekkert undarlegt að rætt sé um olíuhreinsistöð, ömurlegt verksmiðjuferlíki, á kaffistofum Ísfirðinga. Vestfirðingar eru svangir núna eftir að hafa verið sveltir um árabil.

Þess vegna segi ég við þig: Vertu hugrakkur, vertu duglegur en umfram allt vertu róttækur. Við trúum jú bæði á vinstri pólitíkina sem réttu leiðina til að leiðrétta óréttlæti, ekki satt?

Höfundur er formaður Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×