Handbolti

Aron: Vildum ekki vera með hroka

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Efnilegasti handboltamaður landsins er að blómstra með landsliðinu.
Efnilegasti handboltamaður landsins er að blómstra með landsliðinu. Mynd/Stefán

„Við ákváðum að mæta vel stemmdir enda með frábæran stuðning í húsinu. Við vorum búnir að kortleggja þá frá a til ö og það kom okkur ekkert á óvart. Gummi bauð upp á tvo til þrjá myndbandsfundi fyrir leik eins og honum einum er lagið og það skilaði sínu," sagði ungstirnið Aron Pálmarsson eftir leik í dag.

Strákurinn er gjörsamlega búinn að fara á kostum í síðustu tveim leikjum með landsliðinu og skoraði sex glæsileg mörk í dag.

„Þetta lið náði stigi á móti Makedóníu og því vissum við að það væri eitthvað spunnið í þá. Við vildum því ekki vera að mæta með einhvern hroka heldur algjörlega tilbúnir frá upphafi. Það var gaman að klára þetta svona," sagði Aron.

Það höfðu margir áhyggjur af leikjunum gegn Makedónum og Eistum enda vantar ansi marga sterka lykilmenn í landsliðið. Ungu strákarnir sýndu þó mátt sinn í leikjunum og Ísland uppskar fjögur stig.

„Þetta er klassahópur og það þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af þessari framtíð," sagði Aron og hló létt. „Það er frábært að koma inn í þennan hóp enda er vel tekið á móti manni."

Þó svo Aron hafi skorað sex mörk og þá hefur hann oft skotið meira en í dag.

„Ég var tekinn af velli í fyrri hálfleik af því ég skaut ekki nóg. Mig langaði samt að skjóta meira. Ég setti svo nokkrar slummur í seinni hálfleik sem var ljúft," sagði brosmildur Aron.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×