Iðnaður Bandaríska arkitektastofan Choi+Shine fékk nýverið ársverðlaun Arkitektasamtakanna í Boston (The 2010 Boston Society of Architects Award) fyrir hugmynd að burðarvirkjum fyrir háspennulínur sem unnin var fyrir Landsnet árið 2008. Hönnunin kallast „Land of Giants" og var innlegg stofunnar í samkeppni sem Landsnet blés til það ár.
Fjallað er ítarlega um hugmyndina á vef Wired í Bretlandi í gær, en hún vekur athygli fyrir að háspennulínumöstrin eru í mannsmynd og hægt að láta „manneskjurnar" vera í mismunandi stellingum.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri hjá Landsneti, segir ólíklegt að slíkar hugmyndir muni verða að veruleika hér á landi í bráð þar sem engar framkvæmdir eru í gangi. Þó hafi Landsnet sett upp nokkur skrautmöstur við Kárahnjúka á sínum tíma. Þegar framkvæmdir hefjast á ný segir Guðmundur ekki ólíklegt að skoðuð verði ný hönnun á skrautmöstrum, þó sé ekkert búið að ákveða í þeim efnum. - óká, sv
Sjá má niðurstöður samkeppni Landsnets hér.