Fótbolti

Zlatan hættur við að hætta í sænska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. Mynd/AFP
Zlatan Ibrahimovic ætlar að gefa kost á sér í sænska landsliðið á ný í haust þrátt fyrir að hafa gefið út yfirlýsingu í lok síðasta árs um að hann væri búinn að setja landsliðsskónna upp í hillu.

Sænska knattspyrnusamnbandið mun halda blaðamannfund í Malmö á morgun þar sem tilkynnt verður um endurkomu Zlatans en sænsku fjölmiðlarnir voru komnir á sporið í dag.

Zlatan er núverandi leikmaður Barcelona en það hefur orðrómur um það í allt sumar að hann verði seldur áður en tímabilið hefst. Hann hefur náð þeim ótrúlega árangri að vera landsmeistari sjö ár í röð (Ajax 2004, Juventus 2005 og 2006, Inter 2007, 2008 og 2009, Barcelona 2010).

Zlatan er 29 ára gamall og hefur skorað 22 mörk í 62 landsleikjum frá því að hann lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2001.

Erik Hamrén tók við sænska landsliðinu í desember síðastliðinn eftir að Lars Lagerbäck hætti með liðið þegar honum mistókst að koma liðinu inn á HM í Suður-Afríku. Hamrén hefur greinilega tekist að sannfæra stærstu stjörnu sænska fótboltans til að spila fyrir sig.

Fyrsti leikur Svía í undankeppni EM 2012 er á móti Ungverjum 3. september en Holland, Finnland, Moldóva og San Marínó eru einnig með sænska landsliðinu í riðli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×