Körfubolti

Hamar þriðja kvennaliðið til að bæta við sig erlendum leikmanni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julia Demirer í leik með Hamar í fyrravetur.
Julia Demirer í leik með Hamar í fyrravetur. Mynd/Valli

Það er ljóst að samkeppnin er að harðna í Iceland Express deild kvenna eftir að þrjú af átta liðum deildarinnar hafa bætt við sig erlendum leikmanni á síðustu vikum. Hamar hefur nú bæst í hóp með Haukum og Grindavík því Julia Demirer er á leiðinni aftur til liðsins.

Julia Demirer lék með Hamar á síðasta tímabili við góðan orðstír. Demirer var með 18,1 stig og 15,6 fráköst að meðaltali í fyrra en enginn leikmaður deildarinnar tók þá fleiri fráköst en hún.

Julia Demirer verður væntanlega með Hamarsliðinu í fyrsta sinn þegar liðið mætir Keflavík í átta liða úrslitum Subwaybikarkeppninnar á sunnudaginn. Demirer var með tröllatvennu að meðaltali í fjórum leikjum á móti Keflavík í fyrra, skoraði þá 23,8 stig og tók 20,0 fráköst að meðaltali.

Hamar hefur tapað síðustu tveimur leikjum með samtals 39 stigum og þar hefur skipt miklu máli að mótherjarnir (Grindavík og KR) hafa tekið 93 af 153 fráköstum í boði eða 61 prósent frákasta í boði. Julia Demirer hjálpað Hamarsliðinu örugglega mikið í baráttunni um fráköstin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×