Fótbolti

McClaren í vandræðum í Þýskalandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Talið er afar líklegt að Steve McClaren eigi ekki marga daga eftir í starfi hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu Wolfsburg.

Wolfsburg tapaði í gær fyrir Energie Cottbus í þýsku bikarkeppninni og er óvíst hvort að McClaren verði enn við stjórnvölinn þegar keppni hefst í þýsku úrvalsdeildinni á ný eftir vetrarfrí.

Hann tók við félaginu í maí síðastliðnum en liðinu hefur gengið illa í haust og er í þrettánda sæti deildarinnar. Liðið hefur gert sex jafntefli í röð og aðeins unnið einn af síðustu ellefu leikjum sínum.

„Þetta félag þarf á breytingum að halda," sagði McClaren eftir leikinn í gær. „Kannski verða þetta miklar breytingar en ég stjórna því ekki."

„Ég veit ekki hvernig þessi mál muni þróast á næstu dögum. Það veit enginn. Við verðum þó að taka ákvörðun fljótt svo að hægt sé að nota vetrarfríið til að taka til í þessum málum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×