Skoðun

Vei Birgir

Fréttir bárust af því nýlega að Birgir Ármannsson hefði haldið langa tölu í umræðum um stjórnlagaþing, sem meirihluti á Alþingi vill koma á, sem og meirihluti þjóðarinnar. Birgir þingmaður brást þannig ekki skyldu sinni til þess að stuðla að því að sú virðing sem Alþingi nýtur meðal almennings héldist óbreytt enn um sinn, en alltaf er sú hætta fyrir hendi að það breytist ef enginn sinnir þessu verkefni.

Birgir fór nákvæmlega yfir stjórnarskrár a.m.k. tveggja þjóða. Mikilvægi þess að ræða í þaula stjórnarskrár annarra ríkja hlýtur öllum að vera augljóst og skal Birgi bent á að það eru hátt í 200 ríki á jörðinni, sem sjálfsagt eru flest með stjórnarskrá, og því er honum ærið verkefni fyrir höndum. Honum skal líka bent á að framsóknarþingmaður að norðan talaði fyrir ári síðan alls 229 sinnum í einu og sama málinu og varla nema eðlilegt markmið fyrir Birgi að slá það met, til þess að viðhalda enn frekar þeim virðingarsessi, sem Alþingi hlýtur að vera full þörf á að standa vörð um. Svo tíðar göngur í ræðustól bera að vísu ekki vott um lýðræðisást og sennilega ber það líka vott um óskýrleika í frásögn - og kannski vöntun á hæfileika á því sviði - og því viðkomandi til minnkunar, en einhverju verður að fórna þegar mikið liggur við.

Áfram Birgir. Þú átt mikið verk fyrir höndum en þér er að takast ætlunarverk þitt.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×