Körfubolti

Jón Arnór með tíu stig í tveggja stiga tapi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Mynd/Heimasíða Granada
Jón Arnór Stefánsson og félagar í CB Granada þurftu að sætta sig við tveggja stiga tap á útivelli á móti Fuenlabrada, 74-72, í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Jón Arnór skoraði 10 stig á 24 mínútum en hitti ekki vel í leiknum.

Granada byrjaði illa og var sjö stigum undir í hálfleik, 48-41. Góður þriðji leikhluti kom liðinu inn í leikinn en staðan var 58-58 fyrir lokaleikhlutann. Þar höfðu heimamenn síðan betur eftir spennandi leik.

Jón Arnór hitti aðeins úr 4 af 13 skotum sínum í leiknum þar af fór bara 1 af 5 þriggja stiga skotum hans rétta leið. Jón Arnór var einnig með 3 fráköst og 3 fiskaðar villur.

Þetta var fimmti spennuleikurinn í röð hjá Granada en þessir leikir hafa allir unnist á fjórum stigum eða minna. Granada hafði unnið eins stigs sigur um síðustu helgi og tapað með þremur stigum helgina á undan.

Granada er í þriðja neðsta sæti deildarinnar (16. sæti) en liðið hefur aðeins náð að vinna 2 af fyrstu 8 leikjum sínum í deildinni. Fuenlabrada er í 7. sæti með fimm sigra í átta leikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×