Fótbolti

Keita hjá Barcelona: Liðin leggja sig ekki hundrað prósent fram á móti Real

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Seydou Keita, leikmaður Barcelona.
Seydou Keita, leikmaður Barcelona. Mynd/AFP
Seydou Keita, leikmaður Barcelona, er eitthvað pirraður út í það hversu vel Real Madrid liðinu gengur í að bjarga stigunum i harðri baráttu við Barcelona um spænska meistaratitilinn.

Real Madrid kom til baka um helgina eftir að hafa lent 0-2 undir á móti nágrönnum sínum í Atletico Madrid með því að skora þrjú mörk á aðeins þrettán mínútum.

„Ég horfði ekki á Madridar-slaginn af því að ég viss að Real Madrid myndi vinna þennan leik. Ég efast um að liðin leggi sig hundrað prósent fram á móti Real," sagði Seydou Keita á blaðamannafundi í dag.

„Þetta er aðeins mitt persónulega mat og það getur vel verið að leikmenn Madridar-liðsins finnist það sama um mótherja okkar því við virðumst alltaf vinna okkar leiki," sagði Keita en það voru ummæli þjálfara Getafe sem fóru mest í taugarnar á honum.

„Þjálfari Getafe sagðist vilja sjá Real Madrid vinna titilinn og það getur ekki talist verið eðlilegt ef þú lætur slíkt frá þér daginn fyrir leik á móti Real," sagði Keita.

Barcelona og Real Madrid eru efst og jöfn með 74 stig úr 29 leikjum en næsta lið er 21 stigi á eftir. Liðin mætast um helgina 10. til 11. apríl á Bernabeu og sá leikur gæti ráðið úrslitum um hvort liðanna verður meistari.

Barcelona vann fyrri leikinn 1-0 en verði liðin jöfn er það útkoma úr innbyrðisleikjum en ekki markatala sem sker út um sigurvegara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×