Carol van Voorst, þáverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, segir í skeyti sem hún sendi í maí árið 2008 að ákvörðun Íslendinga um að taka við 30 flóttamönnum frá Palestínu hafi afhjúpað vaxandi útlendingahatur í landinu. Hún fer yfir málið og bendir meðal annars á að undirskriftum hafi verið safnað á Akranesi gegn hugmyndinni, en þangað fóru flóttamennirnir. Hún ræðir einnig sérstaklega um andstöðu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar þáverandi varaformanns Frjálslynda flokksins og varabæjarfulltrúa á Akranesi.
„Undirskriftasöfnunin og ummæli Hafsteinssonar eru einkennandi fyrir vaxandi ótta við útlendinga í íslensku samfélagi. Mjög lítið atvinnuleysi og þörf á erlendu vinnuafli bendir til að þessa vaxandi spennu sé ekki hægt að tengja við óánægða Íslendinga sem misst hafa vinnuna til útlendinga. Frekar virðist þetta vera afleiðing þess að einsleitt þjóðfélag, sem á rætur að rekja til víkingaaldar, sé í meira mæli að komast í tæri við aðra menningarheima, fólk af öðrum litarhætti og nýja íbúa sem tala framandi tungumál," segir van Voorst og bætir við:
„Þetta er ennfremur í í fyrsta sinn sem Íslendingar hafa samþykkt að taka við flóttamönnum frá Mið-Austurlöndum, atriði sem gæti verið að valda auknum óþægindum."