Körfubolti

Keflavíkurkonur slógu út KR-banana í Hamar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bryndís Guðmundsdóttir átti flottan leik í kvöld.
Bryndís Guðmundsdóttir átti flottan leik í kvöld. Mynd/Stefán

Keflavíkurkonur tryggðu sér sæti í undanúrslitum Subwaybikars kvenna í körfubolta þegar þær unnu sextán stiga sigur á KR-bönunum í Hamri, 86-72, í Toyota-höllinni í Keflavík. Keflavík hafði örugga forustu allan leikinn og sigur liðsins var aldrei í hættu.

Keflavík komst strax í 15-3 og var 23-9 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Keflavík var síðan með þrettán stiga forskot í hálfleik, 37-24. Hamar náði að minnka muninn niður í sjö stig í fjórða leikhluta en nær komust Hvergerðingar ekki.

Kristi Smith var með 29 stig hjá Keflavík og Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 23 stig, tók 10 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Birna Valgarðsdóttir skoraði síðan 17 stig.

Julia Demirer var með 21 stig og 15 fráköst í sínum fyrsta leik með Hamar en Koren Schram kom henni næst með 11 stig og Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 10 stig.

Hamar hafði tryggt sér sæti í átta liða úrslitunum með því að vera fyrsta og eina liðið sem hefur unnið topplið KR á tímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×