Bandaríkjamenn þrýstu mjög á um það á sínum tíma að Íslendingar viðurkenndu sjálfstæði Kosovo. Í skjölunum sem Wikileaks hafa afhjúpað kemur fram að Bandaríkjamenn töldu Íslendinga draga lappirnar í málinu og velti Carol van Voorst þáverandi sendiherra því fyrir sér hvort framboð Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna væri að valda tregðu hjá íslenskum ráðamönnum að viðurkenna Kosovo.
28. febrúar árið 2008 vitnar Van Voorst meðal annars til samtals við Grétar Má Sigurðsson, þáverandi ráðuneytisstjóra þar sem hún gengur á eftir því við hann að Íslendingar viðurkenni sjálfstæði landsins. Grétar mun aðeins hafa svarað „bráðum" þegar hún þrýsti á um klára dagsetningu, og sagði hann „ýja að því" að skiptar skoðanir væru um málið innan ríkisstjórnarinnar.
„Þrátt fyrir að enginn heimildarmaður okkar innan úr ríkisstjórninni hafi bryddað upp á því beint, teljum við að „skiptar skoðanir í ríkisstjórninni" skýrist af ótta við að framboð Íslands til setu í öryggisráðinu gæti verið í hættu." Van Voorst segir að Íslendingar séu hræddir um að yfirlýsing af þeirra hálfu um sjálfstæði Kosovo muni pirra Rússa.
Því sé allt reynt til þess að finna tímasetningu sem myndi á sem minnstan hátt pirra Rússa og um leið draga úr pirringi Bandaríkjamanna og annarra ríkja sem þrýsti á um að sjálfstæðið verði viðurkennt.
Íslendingar viðurkenndu síðan sjálfstæði Kosovo skömmu síðar, eða 5. mars 2008.