Fótbolti

Gylfi: Er alltaf klár þegar kallið kemur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gylfi Þór fagnar í leik með Hoffenheim.
Gylfi Þór fagnar í leik með Hoffenheim.

Gylfi Þór Sigurðsson er í viðtali á heimasíðu FIFA, fifa.com, þar sem hann ræðir um fyrstu mánuðina í herbúðum þýska liðsins Hoffenheim. Hafnfirðingurinn hefur slegið í gegn hjá félaginu og skoraði 5 mörk í 11 leikjum þó svo hann fái ekki alltaf að spila mikið.

"Þetta félag er miklu stærra en ég bjóst við. Hoffenheim á enn að vera nýtt félag en allt hjá félaginu er fullkomið," sagði Gylfi.

"Það vantar ekkert á æfingasvæðið. Það er allt í mjög háum klassa hérna og þjálfarinn mikill fagmaður. Það er greinilegt að gott gengi félagsins var ekkert slys."

Gylfi segist hafa þurft sinn tíma til þess að aðlagast en sé nú tilbúinn í slaginn af fullum krafti.

"Ég tel mig vera kominn í þá stöðu að geta hjálpað félaginu mikið. Auðvitað vil ég helst spila alla leiki en ég er enn ungur og nýr hjá félaginu. Ég er enn að læra tungumálið og hef mikinn tíma til þess að komast á rétta braut. Ég er samt alltaf klár þegar kallið kemur," sagði Gylfi

"Það er erfitt að spá í hvar við endum í vetur og þess vegna tökum við einn leik fyrir í einu. Ef við eigum möguleika á Evrópusæti undir lok leiktíðar munum við gefa allt sem við eigum til að ná því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×