Körfubolti

Ágúst: Við getum spilað miklu betur en þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars.
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars.

Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, var sáttur með sigurinn á Njarðvík í Iceland Express deild kvenna í kvöld en vonast þó eftir að liðið spili betur í toppslagnum á móti Keflavík í næsta leik.

„Þær missa aðalskorararnn sinn og þá fannst mér eins og liðið mitt héldi að þetta væri komið. Við vorum ekki að hafa nógu mikið fyrir hlutnum og það vantaði meiri kraft í okkar leik. Við vorum með þetta í okkar hendi allan leikinn en Njarðvíkurstelpurnar börðust mjög vel," sagði Ágúst en stigahæsti leikmaður Njarðvíkur, Dita Liepkalne, meiddist á ökkla eftir aðeins 54 sekúndur og var ekkert meira með.

Hamarsliðið er búið að vinna sex fyrstu leiki sína og er á toppnum í Iceland Express deildinni ásamt Keflavík.

„Þetta er óskabyrjun og við getum ekki beðið um betri byrjun en það er strax farið að hugsa um næsta leik sem verður toppslagur í Keflavík. Ég var ekki ánægður með neitt sérstakt nema kannski að Kristrún var rosalega einbeitt og var að klára færin sín vel," sagði Ágúst en Kristrún átti stórleik og skoraði 34 stig þar af 18 þeirra með þriggja stiga skotum.

„Við vorum að spila eins vel og við þurftum að spila. Stemmningin í hópnum er mjög góð og það er ég kannski ánægðastur með. Við þurfum klárlega að spila betur á móti Keflavík og við getum spilað miklu betur en þetta," sagði Ágúst.

„Við getum ekki beðið um meira en þetta því það er erfitt að vinna sjö leiki í sex leikjum. Er ekki fínt að vera búin að klára alla þá leiki sem við erum búnir að fara í. Við erum búin að spila einu sinni við Keflavík í vetur, það fór ekki eins og við ætluðum okkur og við eigum því harma að hefna," sagði Ágúst að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×