Snæfellingar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Keflavík í Stykkishólmi í kvöld. Snæfellingar eru sjöunda liðið í sögunni sem kemst í 2-1 í úrslitaeinvíginu og getur tryggt sér titilinn á heimavelli. Þrjú af þessum sex liðum hafa tapað í sömu stöðu og þar á meðal er Grindavíkurliðið í fyrra. Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.15 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Öll þau þrjú lið sem hefur mistekist að tryggja sér titilinn á heimavelli í fjórða leik hafa síðan tapað oddaleiknum á útivelli líka og þar með misst af Íslandsmeistaratitlinum.
Grindvíkingar töpuðu fyrsta leiknum í úrslitaeinvíginu fyrir ári síðan en unnu síðan næstu tvo leiki, með 12 stigum í Grindavík () og svo með 13 stigum í DHL-höllinni (107-94). KR-ingar unnu hinsvegar fjórða leikinn í Grindavík og tryggðu sér svo Íslandsmeistaratitilinn með eins stigs sigri í oddaleiknum í DHL-höllinni.
Valur (1992) og Keflavík (1991) lentu einnig í því sama og Grindavík fyrir einu ári síðan það er að vinna þriðja leikinn á útivelli og eiga möguleika á að tryggja sér titilinn á heimavelli. Bæði liðin töpuðu líka næstu tveimur leikjum og misstu af titlinum.
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, hefur hinsvegar góða reynslu af svona stöðu því hann gerði KR-inga að Íslandsmeisturum í sömu stöðu fyrir tíu árum síðan. KR tapaði þá fyrsta leiknum fyrir Grindavík en vann síðan næstu þrjá þar á meðal fjórða leikinn með 20 stiga mun.
Lið sem hafa verið 2-1 yfir og hafa átt heimaleik í leik fjögur:
Grindavík 2009 - tap
Leikur 4: Grindavík-KR 83-94
Leikur 5: KR-Grindavík 84-83
Íslandsmeistari: KR
KR 2007 - sigur
Leikur 4: KR-Njarðvík 83-81 (framlengt, 73-73)
Leikur 5: Þurfti ekki
Íslandsmeistari: KR
Keflavík 2004 - sigur
Leikur 4: Keflavík-Snæfell 87-67
Leikur 5: Þurfti ekki
Íslandsmeistari: Keflavík
KR 2000 - sigur
Leikur 4: KR-Grindavík 83-63
Leikur 5: Þurfti ekki
Íslandsmeistari: KR
Valur 1992 - tap
Leikur 4: Valur-Keflavík 56-78
Leikur 5: Keflavík-Valur 77-68
Íslandsmeistari: Keflavík
Keflavík 1991 - tap
Leikur 4: Keflavík-Njarðvík 81-91
Leikur 5: Njarðvík-Keflavík 84-75
Íslandsmeistari: Njarðvík
