Körfubolti

Keflavík gulltryggði sætið í A-deildinni - burstaði Hauka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Valgarðsdóttir lék vel í kvöld.
Birna Valgarðsdóttir lék vel í kvöld. Mynd/xxxx
Keflavíkurkonur tryggðu sér 4. sætið og þar með sæti í A-deild með 85-65 stórsigri á Haukum í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Þetta var síðasta umferðin áður en deildinni er skipt í tvo hluta en með Keflavík í efri hlutanum verða KR, Grindavík og Hamar.

Haukarnir hefðu komist upp í A-deildina með sigri en það var ljóst frá byrjun að það var ekki á dagskránni hjá heimastúlkum sem komust í 7-0 og 17-9. Haukar náðu að minnka muninn í tvö stig, 20-18, fyrir lok fyrsta leikhlutans en Keflavík tók strax frumkvæðið í upphafi annars leikhluta.

Keflavík var síðan 18 stigum yfir í hálfleik, 46-28, eftir að liðið endaði fyrri hálfleikinn eins og vel og það byrjaði hann en Keflavíkurkonur skoruðu fjórtán síðustu stig hálfleiksins.

Hearther Ezell var ekkert á því að gefast upp og kom mununum niður í tólf stig með því að skora 10 stig á fyrstu fjórum mínútum seinni hálfleiksins en Keflavík hélt velli og var ellefu stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 65-54. Keflavík bætti síðan við í lokaleikhlutanum og tryggði sér sannfærandi sigur.

Kristi Smith átti mjög góðan leik með Keflavík og skoraði 28 stig. Birna Valgarðsdóttir var með 19 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar og Bryndís Guðmundsdóttir gaf henni ekkert eftir með 15 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar

Heather Ezell skoraði 24 stig fyir Hauka þar af 18 í seinni hálfleiknum. Kiki Lund var með 16 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×