Ragna Ingólfsdóttir komst ekki í undanúrslit á opna hollenska mótinu í badminton eftir tap á móti Olgu Konon frá Þýskalandi í átta manna úrslitum í dag. Sigur þýsku stelpunnar var öruggur en hún vann hrinurnar 21-8 og 21-9.
Þetta er mjög sterkt mót og Ragna hlaut 2.750 stig á heimslistanum fyrir að ná þetta langt á þessu móti sem er persónulegt met hjá henni.
Mest hefur hún fengið 2.720 stig á Evrópumótinu í apríl síðastliðnum þegar hún komst í 16 manna úrslit. Það er því líklegt að Ragna nái að hækka sig eitthvað á heimslistanum þar sem hún var síðast í 101. sæti.
Næst keppir Ragna á opna franska mótinu sem verður dagana 2. - 7. nóvember næstkomandi. Á því móti keppa sterkustu badmintonspilarar heims.