Starfsmenn olíuhreinsistöðva í Frakklandi virtu að vettugi beiðni stjórnvalda um að þeir sneru aftur til vinnu. Eldsneytisskortur verður því viðvarandi í landinu enn um hríð.
Starfsmennirnir efndu til mótmæla víða um land gegn hækkun eftirlaunaaldurs. Hópar ungmenna tóku þátt í mótmælunum og bifreiðastjórar bættust einnig í hópinn.
Franska þjóðin er afar ósátt við ákvörðun stjórnvalda um að hækka lágmarks eftirlaunaaldur úr 60 árum í 62 ár, en hámarksaldur á jafnframt að hækka úr 65 árum í 67 ár.
Nicolas Sarkozy forseti mælir fyrir daufum eyrum þótt hann bendi á að eftirlaunaaldur í Frakklandi verði eftir sem áður sá lægsti sem þekkist í Evrópu. Hann nær heldur ekki eyrum þjóðarinnar þótt hann bendi á að Frakkar lifi nú mun lengur en áður og að eftirlaunasjóðir séu óðum að rýrna.
Verkföll olíuvinnslustarfsmanna hafa haft gríðarleg áhrif í Frakklandi. Ökumenn hafa hamstrað eldsneyti í stórum stíl, en bensínstöðvar eru að tæmast hver af annarri.- gb