Ógrynni af nýjum upplýsingum hefur komið fram í máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, við rannsókn lögreglu og hjá Fjármálaeftirlitinu (FME) frá því að FME ákvað að hætta fyrri rannsókn sinni á málinu vorið 2009.
Þetta sagði Björn Þorvaldsson, sem fer með málið fyrir hönd sérstaks saksóknara, fyrir dómi í gær þar sem tekist var á um það hvort vísa skyldi málinu frá dómi.
Baldur er ákærður fyrir að hafa nýtt sér innherjaupplýsingar um stöðu Landsbankans sem hann öðlaðist í starfi sínu sem ráðuneytisstjóri þegar hann seldi bréf í bankanum fyrir 192 milljónir rétt fyrir bankahrun.
Karl Axelsson, lögmaður Baldurs, krefst þess að málinu verði vísað frá þar sem ekki megi rannsaka sama málið tvisvar. FME hafi lokið rannsókn á því og nýja málið byggi nær eingöngu á sömu upplýsingum og hið fyrra. Þessu vísar Björn á bug.
Karl fór fram á að ef málinu yrði ekki vísað frá yrði að minnsta kosti hreinsað til í ákærunni og þeir liðir hennar felldir út sem einungis byggðust á upplýsingum sem lágu fyrir við fyrri rannsókn. Björn benti á að ekki væri ákært í mörgum liðum, heldur væri einfaldlega gert grein fyrir upplýsingunum sem Baldur bjó yfir í sex liðum.
Úrskurðar um frávísunarkröfuna er að vænta eftir áramót. - sh