Fótbolti

Tapaði í fyrsta sinn í sjö ár eftir að hafa leikið 57 landsleiki í röð án taps

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gonzalo Higuain er hér sloppinn framhjá þeim Carlos Marchena (til vinstri) og Gerard Pique
Gonzalo Higuain er hér sloppinn framhjá þeim Carlos Marchena (til vinstri) og Gerard Pique Mynd/AFP

Miðvörðurinn Carlos Marchena var í tapliði Spánar á móti Argentínu í vináttuleik í Buenos Aires í gær. Marchena var fyrir leikinn búinn að margbæta heimsmet Brasilíumannsins Garrincha með því að spila 57 landsleiki í röð án þess að tapa.

Carlos Marchena hafði ekki tapað í landsliðsbúningi Spánverja síðan 7. júní 2003 þegar spænska liðið tapaði á móti Grikklandi í undankeppni EM 2004. Liðið hafði síðan þá unnið 47 leiki og gert 10 jafntefli í þeim 57 landsleikjum sem hann hafði tekið þátt í.

Marchena sló met Garrincha 29. maí í sigurleik gegn Sádí-Arabíu þegar hann lék sinn 50. landsleik í röð án þess að tapa. Eina tap Garrincha með landsliði Brasilíu var í hans 50. og síðasta landsleik á ferlinum.

Það munaði mjög litlu að leikirnir hafi aðeins orðið 56 í röð því Spánverjar náðu að tryggja sér 1-1 jafntefli á móti Mexíkó í leiknum á undan með marki David Silva í uppbótartíma.

Tveir aðrir leikmenn spænska landsliðsins í leiknum í gær höfðu aldrei tapað með landsliðinu. Pepe Reina, markvörður Liverpool, hafði ekki tapað í 20 landsleikjum og Alvaro Arbeloa, varnarmaður Real Madrid, hafði leikið 17 landsleiki án þess að tapa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×