Lífið

Fór á nammifyllerí þegar Herra hinsegin var slegin af

Ekkert svo svekktur Vilhjálmur Þór var á leiðinni á Mr. Gay Europe þegar keppnin var slegin af. Hann fær hins vegar ferð til New York og fría gistingu á glæsilegu íbúðahóteli í New Jersey í sárabætur.Fréttablaðið/Vilhelm
Ekkert svo svekktur Vilhjálmur Þór var á leiðinni á Mr. Gay Europe þegar keppnin var slegin af. Hann fær hins vegar ferð til New York og fría gistingu á glæsilegu íbúðahóteli í New Jersey í sárabætur.Fréttablaðið/Vilhelm

„Ég var kominn út um dyrnar, með allan farangurinn, vegabréf og flugmiða og var á leiðinni til ættingja minna í Keflavík þar sem ég ætlaði að gista daginn fyrir brottför. Ég ákvað hins vegar að tvítékka hvort ég væri ekki með allt, fór í fartölvuna og fyrsti póstur var að keppninni hefði verið aflýst," segir Vilhjálmur Þór Davíðsson, Hr. hinsegin okkar Íslendinga.

Mr. Gay Europe-keppnin, sem fara átti fram í Genf í Sviss á dögunum, var slegin af. Ástæðan var sú, að sögn Vilhjálms, að hótelið sem átti að hýsa keppnina ákvað að draga sig út sökum þess að það taldi sig ekki vera að græða nógu mikið á keppninni.

„Skipuleggjendur og aðstandendur keppninnar reyndu allt hvað þeir gátu en fundu ekki keppnisstað með svona skömmum fyrirvara og þess vegna varð ekkert úr þessu."

Vilhjálmur segir þetta vissulega vera svekkjandi, hann hafi verið búinn að fá sig lausan úr vinnu til að taka þátt og eytt ómældum tíma í undirbúning. „Ég tók þetta alla leið, æfði tvisvar á dag, sleppti allri óhollustu og var í flottu formi. Ég fór náttúrulega á algjört nammi­fyllerí þegar þetta var staðfest."

Vilhjálmur er einnig með keppnisrétt í Mr. Gay World sem fram fer í Manila á Filippseyjum. Hann segir meiri líkur en minni á að hann taki þátt í þeirri keppni þótt hann viðurkenni að hann sé aðeins brenndur af fyrri reynslu. „Mér þykir líklegra að ég fari," segir hann.

Vilhjálmur getur hins vegar brosað í gegnum tárin því fyrir algjöra tilviljun var norskur hótel­eigandi, Jarl Haugedal, staddur hér á landi ásamt vinkonu sinni Heru Björk, Eurovision-stjörnu. Haugedal þessi á lúxusíbúðarhótelið NYC-JC og situr í dómnefnd Mr. Gay Europe og fann til með Vilhjálmi sökum þess hversu mikla vinnu hann hafði lagt í keppnina.

„Þannig að Iceland Express og hann ætla að bjóða mér til Bandaríkjanna. Ég fæ að gista í svítu hótelsins. Sem er ekkert slæmt og bætir þennan missi algjörlega upp."

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×