Yamamoto tekur sæti Chandok

Enn verða skipti á ökumönnum hjá Hispania liðinu spænska Formúlu 1. Í síðustu keppni tók Sakan Yamamoto sæti Bruno Senna án mikils fyrirvara, en í mótinu á Hockenheim um næstu helgi ekur Yamamoto bíl Karun Chandok. Senna fékk skilaboðin á mótsstað á Silverstone, þegar honum var skipt út án mikils fyrirvara. Hann mun halda sæti sínu út árið, samkvæmt frétt á autosport.com í dag, en óljóst er hvað verður með sæti Chandok. Í tilkynningu frá Hispania segir að Chandok verði í einhverjum mótum síðar á árinu.