Handbolti

Þriggja marka tap í síðasta leiknum á móti Norðmönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 6 mörk í kvöld.
Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 6 mörk í kvöld. Mynd/Vilhelm

Íslenska 21 árs landsliðið tapaði 32-35 á móti Noregi í þriðja og síðasta æfingaleik þjóðanna sem fram fór á Selfossi í kvöld. Ísland vann fyrsta leikinn 29-29 á laugardaginn en liðin gerðu síðan 25-25 jafntefli í gær. Selfyssingurinn Ragnar Jóhannsson var markahæstur en hann skoraði 7 mörk einu meira en Akureyringarnir Guðmundur Hólmar Helgason og Oddur Gretarsson.

Íslenska liðið var yfir í byrjun en skelfilegur kafli þýddi að Norðmennirnir breyttu stöðunni úr 2-1 fyrir Ísland í 3-7. Einar Guðmundsson, landsliðsþjálfari tók þá leikhlé og kom sínum mönnum í gang.

Íslenska liðið skoraði fimm mörk í röð, öll úr hraðaupphlaupum og var síðan komið með þriggja marka forskot, 15-12, skömmu fyrir leikhlé. Þá kom annar skelfilegur kafli og Norðmenn skoruðu þrjú mörk á stuttum tíma og náði að jafna leikinn í 15-15 fyrir hálfleik.

ÍR-ingurinn Arnór Stefánsson varði 12 skot í fyrri hálfleiknum og þeir Róbert Aron Hostert (Fram), Oddur Grétarsson (Akureyri) og Ragnar Jóhannsson (Selfoss) skoruðu allir fjögur mörk hver.

Ísland var með frumkvæðið í upphafi seinni hálfleiks en það var jafnt á flestum tölum þar til að Norðmenn breyttu stöðunni úr 24-24 í 25-30. Íslensku strákarnir náðu að minnka muninn aftur niður í eitt mark en Norðmenn áttu lokaorðið og skoruðu tvö síðustu mörk leiksins.

Ísland-Noregur 32-35 (15-15)

Mörk Íslands: Ragnar Jóhannsson 7, Guðmundur Hólmar Helgason 6, Oddur Gretarsson 6/2, Róbert Aron Hostert 5, Ólafur Guðmundsson 3, Bjarki Már Elísson 2, Guðmundur Árni Ólafsson 1, Halldór Guðjónsson 1, Stefán Sigurmannsson 1. Arnór Stefánsson varði 16 skot og Kristófer Guðmundsson varði 1 skot.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×