Sport

UFC meistari segir frá fjár­kúgun og „fölskum á­sökunum“

Aron Guðmundsson skrifar
Ilia Topuria er ríkajndi léttivigtarmeistari í UFC
Ilia Topuria er ríkajndi léttivigtarmeistari í UFC Vísir/Getty

Ilia Topuria mun ekki verja léttivigtartitil sinn í UFC á næstunni. Hann mun einbeita sér að því að vernda æru sína og fjölskyldu utan bardagabúrsins og verjast tilraun til fjárkúgunar.

Topuria gaf frá sér yfir­lýsingu á sam­félags­miðlum í gær þar sem að hann segist vera fórnar­lamb til­raunar til fjárkúgunar. Georgíumaðurinn segir sér hafa verið hótað á þá leið að ef hann reiddi ekki fram ákveðna upp­hæð fjár­muna yrðu ásakanir í hans garð um heimilis­of­beldi gerðar opin­berar.

Topuria segir í yfir­lýsingu sinni að þessar grunnur fyrir þessum meintu ásökunum eigi sér enga stoð í raun­veru­leikanum en það vakti á dögunum at­hygli þegar að hann gaf frá sér meistara­titilinn í létti­vigtar­deild UFC.

„Ég ákvað fyrst að segja ekkert. Sú ákvörðun var ein­vörðungu byggð á því að ég vildi vernda börnin mín sem eru það mikilvægast í mínu lífi,“ segir Tu­poria í yfir­lýsingu sinni.

„Hins vegar hef ég nú áttað mig á því að þögn í þessum aðstæðum mun ekki vernda sann­leikann heldur búa til aðstæður sem munu leyfa sögusögnum að grassera.“

Hann segist ekki munu stíga aftur í bar­daga­búrið hjá UFC fyrr en í fyrsta lagi eftir fyrsta árs­fjórðung næsta árs og ætlar ekki að tjá sig frekar um málið opin­ber­lega af virðingu við börn sín og laga­ferli sem eru í gangi.

Topuria er ósigraður á sínum at­vinnu­manna­ferli í MMA og á fimm ára tíma­bili frá 2020 til 2025 hefur hann unnið níu bar­daga í röð í UFC.

Hann varð meistari í létti­vigtar­deild UFC í febrúar á síðasta ári þegar að hann stöðvaði þá ríkjandi meistarann Alexander Volka­novski. Síðan þá hefur Tu­poria varið titilinn í tví­gang, fyrst gegn Max Holloway og svo gegn Charles Oli­veira í júní fyrr á þessu ári.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×