Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi um mánaðamótin stjórnvöldum bréf þar sem fram kemur að grunur leiki á að fjölfosföt séu enn notuð í saltfiskverkun hér. Notkun fjölfosfata við saltfiskverkun er bönnuð á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og innan aðildarríkja Evrópusambandsins
Fjölfosföt eru aukaefni sem sprautað er í saltfisk til að gera hann hvítari og bindur vatn í honum sem þyngir hann. Efnið hefur ekki áhrif á bragðið.
Ólafur Valsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Matvælasviðs hjá innra markaðssviði ESA í Brussel, segir ESA líta málið mjög alvarlegum augum. Hann væntir þess að stjórnvöld bregðist skjótt við og framfylgi banninu.
Norskir fjölmiðlar hafa fjallað um notkun fjölfosfata í frystum fiski upp á síðkastið. ESA hóf rannsókn á notkun efnisins hér eftir að fiskverkun Karls Sveinsonar á Borgarfirði eystri sagði upp öllu starfsfólki sínu í september.
Ástæðan var sú að saltfiskur fyrirtækisins þótti ekki samkeppnishæfur í útflutningi þar sem efninu var ekki sprautað í hann.
Matvælastofnun, sem hefur eftirlit með framfylgni reglna í matvælaiðnaði, gaf út í september að hún vilji bíða með aðgerðir fram yfir áramót. Ólafur segir stofnunina ekki hafa heimild til þess.
„Yfirvöld verða að standa við samninga.“
- jab