Fanney Lind Guðmundsdóttir átti góðan leik með Hamar í kvöld sem vann sigur á Keflavík á útivelli, 72-69, í uppgjöri toppliða deildarinnar.
Bæði lið voru ósigruð fyrir kvöldið en Fanney Lind og félagar hennar tróna nú einar á toppi deildarinnar.
„Byrjunin á leiknum var mjög erfið og við byrjuðum í raun ekki að spila fyrr en í fjórða leikhluta," sagði Fanney Lind.
„Þá spiluðum við sem lið og þá gekk þetta allt upp. Við þurfum að spila betri varnarleik en við gerðum í kvöld til að vinna leiki eins og þennan en sem betur fer stigum við upp í fjórða leikhluta og kláruðum leikinn."
„Það er frábært að byrja svona vel á tímabilinu og gaman að skrifa alltaf nýja kafla í sögu Hamars," bætti hún við.
Fanney Lind: Stigum upp í fjórða leikhluta
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
