Skoðun

Barnamenningarhús

Fríkirkjuvegur 11 er perla í hjarta miðborgarinnar. Áratugum saman hefur húsið þjónað reykvískum börnum. Þegar meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ákvað haustið 2006 að selja Björgólfi Thor Björgólfssyni húsið lögðust borgarfulltrúar VG gegn því, enda dýrmætur hluti úr sögu barnanna í borginni. Húsið hefur hýst íþrótta- og tómstundasvið um langt skeið en þar á undan voru þar haldin ýmiss konar námskeið og starfsemi í þágu almennings og með sérstakri áherslu á börn.

Borgarfulltrúar VG lögðu til að húsið yrði áfram í eigu borgarinnar og gert að barnamenningarhúsi. Þessi hugmynd er ekki úr lausu lofti gripin því að fjöldi fólks hefur talað fyrir sérstakri stofnun sem ætlað væri að standa vörð um barnamenningu á Íslandi. Samtök um barnamenningarstofnun hafa unnið vandaða vinnu, kynnt sér starfsemi sambærilegra húsa í nágrannalöndunum. Sú vinna lögð til grunvallar þegar VG flutti tillöguna í borgarstjórn haustið 2006.

Tillagan var felld. Húsið var selt og hefur staðið autt síðan, þrátt fyrir háleit markmið. Undanfarnar tvær vikur hefur þó heldur betur lifnað yfir húsinu, enda var því breytt í ævintýrahöll í tilefni barnamenningarhátíðar í Reykjavík. Ævintýrahöllin var stórkostleg í alla staði og hafa í kjölfarið aftur sprottið upp hugmyndir um nýtingu hússins í þágu barna.

Við vinstri græn stöndum enn föst á þeirri skoðun að húsið við Fríkirkjuveg 11 eigi að þjóna almenningi. Húsið er enn til staðar og á sér sögu sem bætir upp þau dapurlegu þrjú ár sem nú eru liðin frá sölunni. Þetta hús er kjörið til að nýta í þágu barna í Reykjavíkurborg og borgarfulltrúar vinstri grænna munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að það nái fram að ganga - hér eftir sem hingað til.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×