Skoðun

Hrað­braut við fjöruna í Kópa­vogi - Kárs­nes­stígur

Ómar Stefánsson skrifar

Í nútímaþjóðfélagi er farið að leggja meiri og meiri vigt á að hafa góð svæði fyrir útivist. En það er ljóst við lestur framlagðra gagna bæjarstjórnar Kópavogs um þennan stíg að hann skal leggja meðfram fjörunni og vera sem beinastur og greiðastur svo hægt sé að komast sem hraðast yfir. Guð forði okkur frá því að á honum séu beygjur. Því einn af ókostum í öðrum möguleikum fyrir stíginn eru að mögulega séu 3-4 beygjur á öðrum leiðum og því dæmdar ómögulegar.

Ekki bara fallegt fólk í Spandex

Það er ástæða fyrir því þessi stígur er ekki kallaður hjólastígur, hún er sú að ljóst er að í framtíðinni verður mesta umferðin um þessa stíga, vélknúin tæki hvort sem það er rafmagnsknúið eða bensín, ekki bara fallegt fólk á reiðhjólum í spandex göllum. Því miður fyrir þetta skemmtilega útivistarsvæði, verður þetta hraðbraut og ekkert annað. Hraðbraut fyrir öll þau vélknúnu farartæki sem, samkvæmt lögum, mega keyra eftir þessum samgöngustíg. Það er markmið Borgarlínu að auka umferð um þessa samgöngustíga og þá má gera ráð fyrir að þessi vélknúnu hjól og rafhlaupahjól sem mesta aukningin felst í. Það væri meira öryggi í því að leggja sérmerktar brautir við umferðargötum fyrir þessi farartæki.

Mín einlæga von

Það virðist ekki breyta neinu hvað fólki á Kársnesinu finnst! Ekkert tillit er tekið til þess að mörgum íbúum á Kársnesi þykir vænt um svæðið og vilja njóta útiverunar, nærveruna við fuglalífið og náttúruna. Ekkert tillit er tekið til þess verðmætis sem felst í því. Ekki nefnt einu orði að þetta er skilgreint sem útivistarsvæði. Á fundi bæjarstjórnar mátti heyra á máli formanns skipulagsnefndar að tillagan væri meitluð í stein. Engu að síður er það mín einlæga von að bæjaryfirvöld sjái að það eru aðrir möguleikar í stöðunni og að þessi vinsæla gönguleið verði áfram notuð til náttúru göngu og yndis. En ekki sem hraðbraut.

Höfundur er fyrrverandi bæjarfulltrúi í Kópavogi og íbúi á Kársnesi.




Skoðun

Sjá meira


×