Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hvetur stjórnvöld í Evrópu
og flugmálayfirvöld alls staðar í heiminum að hefja undirbúning
vegna hugsanlegs Kötlugoss. Hættan væri ekki liðin hjá og en það gætu liðið 5-15 ár þangað til gos hæfist í Kötlu. Þetta kom fram í máli forsetans í sjónvarpsviðtali í BBC, breska ríkisútvarpinu, í gær.
Ummæli Ólafs Ragnars í viðtali á sömu sjónvarpsstöð á mánudagskvöld vöktu hörð viðbrögð í ferðaþjónustunni og hjá stjórnvöldum hér á landi. Í umræddu viðtali sagði Ólafur Ragnar að gosið á Eyjafjallajökli væri aðeins æfing fyrir Kötlugos. Í gær sagðist forsetinn hafa hvatt flugfélög, flugvélaframleiðendur og yfirvöld um allan heim til að endurskoða áætlanir og tæknina og vera þannig undirbúin þegar gos í Kötlu hæfist.
Þá var Ólafur Ragnar spurður hvort að flugbannið og viðbrögð yfirvalda í Evrópu hafi ekki gengið of langt. Því sagðist forsetinn ekki geta svarað. Íslendingar væru ánægðir með að hvorki hér á landi né annarsstaðar í heiminum hefði orðið mannfall vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.
Hægt er að horfa á viðtalið við Ólaf Ragnar hér.