Körfubolti

KR-konur unnu sannfærandi sigur í Hveragerði og jöfnuðu einvígið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Kara Sturludóttir fór fyrir liði KR í Hveragerði í kvöld.
Margrét Kara Sturludóttir fór fyrir liði KR í Hveragerði í kvöld. Mynd/Stefán
KR-konur unnu til baka heimavallarréttinn með sannfærandi tólf stiga sigri á Hamar, 69-81 í öðrum leik liðanna í lokaúrslitum úrslitakeppni Iceland Express deild kvenna í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Staðan er þar með 1-1 í einvíginu en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari.

Það voru margar að spila vel fyrir KR í kvöld, Margrét Kara Sturludóttir var með 19 stig og 10 stoðsendingar, Jenny Pfeiffer-Finora skorað 15 stig , Signý Hermannsdóttir var með 13 stig og 13 fráköst, Unnur Tara Jónsdóttir var með 12 stig og fyrirliðinn Hildur Sigurðardóttir var með 11 stig, 19 fráköst og 6 stoðsendingar. Koren Schram skoraði 19 stig fyrir Hamar.

KR-liðið mætti grimmt til leiks og var 22-17 yfir eftir fyrsta leikhlutann og þar vóg þungt að liðið vann fráköstin 17-3 fyrstu tíu mínútur leiksins.

KR bætti við í öðrum leikhluta, Jenny Pfeiffer-Finora setti meðal annars niður þrjá þrista á stuttum tíma og KR komst mest 14 stigum yfir, 38-24 og leiddi að lokum með tólf stigum í háfleik, 42-30.

KR-liðið hélt meðal annars Kristrúnu Sigurjónsdóttur stigalausri í fyrri hálfleik en hún var með 20 stig í fyrri hálfleiknum í fyrsta leiknum.

Hamar náði að minnka muninn niður í sjö stig, 39-46, en KR svaraði öllum áhlaupum og var tíu stigum yfir, 59-49, fyrir lokaleikhlutann en sigur KR var aldrei í hættu í fjórða leikhlutanum.

Hamar-KR 69-81 (30-42)

Stig Hamars: Koren  Schram 19, Julia Demirer 15 (11 fráköst), Guðbjörg Sverrisdóttir 8, Kristrún Sigurjónsdóttir 8 (6 stoðsendingar), Íris Ásgeirsdóttir 8, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 6, Fanney Lind Guðmundsdóttir 3, Hafrún Hálfdánardóttir 2.

Stig KR: Margrét Kara Sturludóttir 19 (4 fráköst, 10 stoðsendingar), Jenny  Pfeiffer-Finora 15, Signý Hermannsdóttir 13 (13 fráköst, 4 varin skot), Unnur Tara Jónsdóttir 12 (7 fráköst), Hildur Sigurðardóttir 11 (19 fráköst, 6 stoðsendingar), Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 9, Helga Einarsdóttir 2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×