„Það er fullkomlega ómaklegt af formanni samninganefndar Íslands að segja að við séum á einhvern hátt að bregðast. Við höfum unnið meira en hagsmunasamtökum er ætlað að gera,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og formaður samningarnefndar Íslands um aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB), sagði í samtali við Fréttablaðið á laugardag Bændasamtökin ekki vilja taka þátt í fjögurra daga rýnifundi um landbúnaðarmál í Brussel.
Samninganefndin verði að leita annarra leiða og styðjast við þá krafta sem nefndin hafi í landbúnaðarráðuneytinu. Stefán sagði hjásetu Bændasamtakanna geta gert stöðu samninganefndarinnar í landbúnaðarmálum lakari en ella.
Haraldur segir sárt að heyra þessa gagnrýni. Bændasamtökin hafi tekið að sér verk í tengslum við aðildarviðræðurnar sem hafi í raun átt að vera á herðum stjórnvalda en landbúnaðarráðuneytið ekki getað sinnt sökum andstöðu Jóns Bjarnasonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, við aðildarviðræður Íslands um inngöngu í ESB.
„Ráðuneytið neitar allri vinnu en ber raunverulega ábyrgð á að fylgja eftir hagsmunum atvinnuvegarins, ekki við,“ segir Haraldur.
Ekki náðist í Jón Bjarnason þegar eftir því var leitað í gær.
- jab