Helga Margrét Þorsteinsdóttir missti aldrei trúnna á því að hún gæti náð verðlaunasæti á HM unglinga í frjálsum íþróttum sem fór fram í síðustu viku í Kanada. Helga vann bronsverðlaun og er á leiðinni til Barcelona í dag þar sem hún keppir á sjálfu Evrópumótinu.
Helga var þreytt eftir erfiða viku og langt ferðalag en hún lenti seint í nótt í Keflavík. Þar verður hún aftur tólf tímum seinna, síðdegis í dag.
Sjöþrautakonan keppir á föstudag og laugardag í Barcelona. "Það er miklu, miklu sterkara mót," sagði Helga við Vísi.
Árangur hennar í Kanada var frábær. Í fyrstu gekk henni ekkert í hag en hún neitaði að gefast upp.
"Ég var rosalega hrædd eftir fyrsta daginn því langstökkið var eftir. Það er líklega mín slakasta grein í dag en þær voru allar sterkar í því," sagði Helga.
"Ég datt bara niður um þrjú sæti eftir langstökkið og þá fékk ég trúnna á þetta. Ég hætti bara að hugsa um stigin og hugsaði svo um spjótið."
"Það gekk vel og ég komst upp í fjórða sætið með því að vinna það. Þá kom ekkert annað til greina en að komast á pall. Mér leið bara eins og heimsmeistara þegar ég kom í mark," sagði Helga en síðasta greinin var 800 metra hlaup sem Helga vann einnig.
"Eftir hástökkið og kúluna hélt ég að ég myndi lenda í svona 10 sæti en svona er þrautin, þetta er virkileg þraut," segir Helga.
"Mínar bestu greinar koma í lokin, það er gott að vita af þeim en maður er kannski aldrei í baráttunni fyrr en eftir það," sagði bronsverðlaunahafinn Helga Margrét Þorsteinsdóttir úr Ármanni.
