Ragnar gerði athugasemdir við nokkur ákvæði í eldri Icesave-samningum þegar þeir lágu fyrir en hann var einna fyrstur til sumarið 2009 að benda á að ákvæði þeirra væru andstæð framkvæmd samkvæmt íslenskum gjaldþrotalögum. Ragnar var jafnframt þeirrar skoðunar að ekki væri nein ríkisábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innistæðueigenda, en hann telur samt réttast að semja um lausn málsins.

„Ég lýsti þeirri skoðun að á þeim tíma að ég teldi að Ísland hefði ekki skuldbindingar að lögum til þess að það væri ríkisábyrgð á tryggingarsjóðnum eða greiðslum í hann. Hins vegar hef ég talið frá upphafi, og lýst þeirri skoðun oftar en einu sinni, að það væri best fyrir okkur að semja okkur út úr þessum vanda. Þó ég væri óánægður með samninginn sem var gerður. Ég er því hlynntur því að samningarnir sem nú liggja fyrir verði samþykktir," segir Ragnar.
Þannig að þú munt greiða atkvæði með þessum samningum í þjóðaratkvæðagreiðslunni? „Já, ég mun gera það."
Ragnar segir að alltaf megi deila um hvað sé sanngjarnt og hvað ekki þegar komi að samningum. Hins vegar fylgi öllum málaferlum einhver áhætta. „Og ef niðurstaða dómstóla yrði sú að við hefðum að einhverju leyti vanrækt skyldur okkar í sambandi við þennan sjóð (Tryggingarsjóð innistæðueigenda innsk.blm) þannig að íslenska ríkið verði að taka afleiðingunum af því og bera þetta tjón þá væri það margfaldur skellur miðað við það sem samningar hafa tekist um. Mér finnst ekki ráðlegt að taka þá áhættu," segir Ragnar. thorbjorn@stod2.is