Bikarmeistaramótinu í sundi lauk í Reykjanesbæ í gær og varð Ægir meistari í kvennaflokki en SH í karlaflokki.
Ægir var í mikilli baráttu um titilinn við heimamenn í ÍRB en hafði að lokum betur. Ægir hlaut samtals 14.532 stig en ÍRB 14.468 stig. Í þriðja sæti varð svo SH með 12.681 stig en alls kepptu sex lið í karla- og kvennaflokki.
Minni spenna var í karlaflokki en SH vann með nokkrum yfirburðum og hlaut samtals 14.857 stig. Ægir varð í öðru sæti með 13.784 stig og Fjölnir í því þriðja með 11.328 stig.
KR varð í neðsta sæti í bæði karla- og kvennaflokki en hélt þó sætum sínum í bæði 1. deild karla og kvenna. Fjölnir bar sigur úr býtum í 2. deild í kvennaflokki og Óðinn í karlaflokki en hvorugt liðið náði fleiri stigum en KR sem hefði þurft til að fella liðið í 2. deildina.
Jakob Jóhann Sveinsson átti stigahæsta sund karla og hlaut fyrir það 738 stig en tvær sundkonur náðu mest 741 stigi í sínum greinum - Ragnheiður Ragnarsdóttir, KR og Eygló Ósk Gústafsdóttir, Ægi.
Eitt Íslandsmet féll á mótinu en Eygló Ósk setti nýtt met í 200 m baksundi. Hún bætti eigið met um tæpa sekúndu er hún synti á 2:17,88 mínútum.
Ægir og SH bikarmeistarar í sundi
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mest lesið





Arnar spilaði með besta „pöbbaliði“ Bretlands
Enski boltinn




Salah nálgast nýjan samning
Enski boltinn
